Yoga mudra: mest fyrir minnst æfingin

Yoga mudra hefur frá upphafi verið mín uppáhaldsæfing. Ekki vegna þess að hún sé svo grand, flott eða erfið. Heldur vegna áhrifanna sem hún kallar fram í líkamanum.

Meðan ég var enn að vinna í skrifstofustarfi, var þetta æfingin sem ég laumaðist til að gera þegar enginn sá til. Og áhrifin voru ótvíræð, það er hægt að segja að þetta hafi verið æfingin sem bjargaði mér frá skrifstofukryppunni! Hvað skyldi þessi æfing geta gert fyrir þig?

Það þarf ekki að halda  Yoga Mudra stöðunni í langan tíma en hún getur samt haft gríðarlega góð áhrif á allan líkamann. Förum aðeins yfir þetta.

Hvað og hvernig

Í raun er Yoga Mudra nokkrar æfingar í einni. Við erum fyrst og fremst í axlaropnun, en með því að halda greipunum spenntum í þessari stöðu getum við losað um spenni í og kringum axlir. Við erum einnig í frambeygju, en það eru allar æfingar þar sem við leggjum búk í átt að fótleggjum. Að lokum er staðan viðsnúin, en svo nefnast allar æfingar þar sem ýmist: a) höfuð fer í lægri stöðu en hjartað b) fætur fara í hærri stöðu en hjartað c) eða bæði a og b.

Framkvæmdin

1. Fótstaða

Hafðu rúmlega mjaðmabil á milli fóta og ekki hafa hnén í læstri stöðu, fætur snúa beint fram eða í örlítilli útskeifu.

2. Hendur

Yoga mudra

Spenntu greipar fyrir aftan bak, en láttu samt lófana alltaf snúa að þér. Ef það er erfitt að spenna greipar er hægt að nota lítið handklæði til að halda í fyrir aftan bak. Lokatakmarkið er að halda greipunum spenntum og láta lófana liggja alveg saman líka.

Hér þrýstum við bringunni fram og aðeins upp á við. Á sama tíma þrýstum við herðablöðum saman fyrir aftan bak. Hér erum við fyrst og fremst að reyna að finna smá teygju á bringunni og framan á öxlum. Ef við erum að glíma við blóðþrýstingsvandamál eða höfum ekki gott jafnvægi skulum við halda okkur í þessari stöðu og sleppa skrefi 3 í bili.

3. Halla fram

Með greiparnar spenntar fyrir aftan bak höllum við höfðinu varlega fram og leyfum því að síga eins langt niður og það kemst. Við erum áfram með greiparnar spenntar en leyfum höndunum að síga eins langt í átt að gólfi fyrir ofan höfuð og við getum.

Við höngum fram af mjöðmum og reynum að dæsa eða andvarpa nokkrum sinnum. Slökum á hálsi og andliti.

Komdu RÓLEGA upp sömu leið og þú fórst niður. Ef við förum hratt upp gæti okkur sortnað fyrir augum.

Nú er komið að þér!

Líklega situr þú núna!? Ég skora á þig að standa upp og framkvæma þessa einföldu æfingu. Allt sem þarf til er vilji og nokkur andartök!

Það er bara til eitt  eintak af þér. Farðu vel með það.

 

 

Aðstoð?

Viltu fá aðstoð kennara? Bókaðu Jakkafatajóga á vinnustaðinn eða komdu í jóga með Eygló á kvöldin í Víkurhvarfi 1, Kópavogi.

pistillinn birtist fyrst 2.okt 2017 á heimasíðu Jakkafatajóga