Kattarteygjan – að hreyfa hrygginn

Kattarteygjan (e. cat/cow pose) er ein þeirra hreyfinga sem ég geri nokkrum sinnum á hverjum einasta degi. Þessa æfingu er hægt að gera standandi eða sitjandi í stól og hún hefur alltaf góð áhrif á okkur. Reyndar er þetta ein af þeim æfingum sem allir leita í þegar þreytan sækir á. Við förum eiginlega alveg ósjálfrátt inn í hana þegar við teygjum úr okkur!

Hvað og hvernig

Kattarteygjan er í raun tvær æfingar í einni, hún felur í sér örlítið af bæði baksveigju og frambeygju. Þannig fáum við fram- og afturhreyfingu á búkinn sem er mjög holl fyrir okkur.

Baksveigjur kallast allar æfingar þar sem við ýkjum fettu í bakinu, þrýstum brjóstkassa fram og horfum upp á við.

Frambeygjur kallast allar æfingar þar sem við setjum kryppu á bak og horfum í átt að nafla.

Kattarteygjan framkvæmd

1. Fótstaða

Hafðu rúmlega mjaðmabil á milli fóta og ekki hafa hnén í læstri stöðu, fætur snúa beint fram eða í örlítilli útskeifu.

2. Handstaða

Settu fingur á hnakka eða spenntu greipar á hnakka.

kattarteygjan

3. Baksveigja

Á þessum stað í hreyfingunni er gott að anda að og reyna að fylla lungun.

Hér þrýstum við bringunni fram og aðeins upp á við.

Á sama tíma þrýstum við herðablöðum saman fyrir aftan bak. Þrýstum olnbogum eins aftarlega og við getum (virkjum vöðvana á milli herðablaða).

Hér erum við fyrst og fremst að reyna að finna smá teygju á bringunni og framan á öxlum.

kattarteygjan

4. Frambeygja

Nú öndum við frá og reynum að tæma lungun um leið og við setjum kryppu á bak.

Hér þrýstum við herðablöðum í sundum og horfum í átt að nafla.

Á sama tíma þrýstum við olnbogum saman fyrir framan okkur.

Hér fáum við smá teygju á svæðinu á milli herðablaðanna.

 

Gerðu nokkrum sinnum og alltaf í takt við andardráttinn.

Finndu hvernig þú hitar og mýkir vöðvana í bakinu og léttir á spennu í öxlum í leiðinni.

 

Nú er komið að þér!

Líklega situr þú núna!? Ég skora á þig að standa upp og framkvæma þessa einföldu æfingu. Allt sem þarf til er vilji og nokkur andartök!

Það er bara til eitt  eintak af þér. Farðu vel með það.

 

Aðstoð?

Viltu fá aðstoð kennara? Bókaðu Jakkafatajóga á vinnustaðinn eða komdu í jóga með Eygló á kvöldin í Víkurhvarfi 1, Kópavogi.

 

Pistillinn birtist fyrst þann 9. okt 2017 á heimasíðu Jakkafatajóga.