Andaðu dýpra!

Andaðu djúpt nokkrum sinnum á dag.

Vissir þú að það er til fyrirbæri í lífeðlisfræði sem heitir „dauða-loftið“ ?

Andaðu eins og þú eigir lífið að leysa

Það er notað yfir loft sem við öndum að okkur, en við skilum aldrei frá okkur. Sem sagt, þegar við öndum að og frá okkur er alltaf ákveðinn hluti af loftinu sem við skilum aldrei frá okkur. Það er alltaf smá eftir í öndunarveginum okkar (um það bil 500 ml) og ef við öndum ekki nægilega djúpta að okkur í næsta andardrætti, þá fáum við ekkert nýtt loft í lungun heldur bara það sem varð eftir í öndunarveginum í síðustu öndun!

Andaðu

Hræðilegt ekki satt!?

Það er bara eitt ráð við þessu og það er að anda dýpra. Við viljum klárlega anda dýpra, því þá eru líka meiri líkur á að við náum að nýta stærri hluta af lungunum okkar. Sem er líka gott, því stærstu lungnablöðrurnar (sem búa til mest súrefni) þær eru neðst í lungunum. Því meira súrefni sem við náum að búa til í hverjum andardrætti, því sjaldnar þurfum við svo að anda, sem aftur minnkar álag á allt kerfið. Blóðrásin nær þá að senda meira af súrefni út í frumur líkamans í hverjum hjartslætti. Meira súrefni og betra blóðflæði þýðir yfirleitt bara eitt fyrir okkur: meiri orka!

Ég þekki engan sem vildi ekki þiggja örlítið meiri orku yfir daginn. En þú?

Hvernig virkar þetta svo, er nóg bara að anda djúpt?

Fyrsta skrefið er að skoða hvernig þú andar. Veistu það? Eða hefur þú kannski aldrei velt því fyrir þér?

Prófaðu nú að leggja annan lófann á naflann og hinn á bringubeinið, dragðu svo djúpt andann eins og þú gerir venjulega þegar þú andar djúpt. Reyndu um leið að athuga hvort lófinn hreyfist meira, þ.e. hvort svæðið tútnar meira út þegar þú andar að þér; kviðurinn eða bringan.

Það er mjög gott að geta notað öll lungnarýmin en stundum þurfum við að æfa okkur í djúpöndun (einnig kölluð jógaöndun eða könnuöndun, nánar um það síðar). Þegar við stundum djúpöndun, þá er það kviðurinn sem þrýstist meira út við innöndun.

Æfðu þig í að anda

Til að æfa þessa öndun skaltu nú leggja annan lófann við kviðinn, um það bil hálfum til einum sentimeter frá yfirborði húðarinnar. Þegar þú svo andar að, þá reynir þú að þrýsta kviðnum út svo hann snerti lófann.  Þannig þrýstist kviðurinn út á innöndun og dregst aftur saman á fráöndun.

Gott er að prófa sig áfram nokkra andardrætti í senn og jafnvel í sitjandi stöðu því þeir sem eru óvanir djúpöndun geta jafnvel fundið fyrir vægum svima fyrst um sinn við þessa tilraun 🙂

Góða skemmtun og njótið vel

Eygló Egils