Tímasóun að teygja?

Jóga snýst ekki bara um að teygja á líkamanum. Í upphafi var aðeins ein jógastaða og aðeins einn mjög skýr tilgangur með jógaiðkun. Tilgangur jóga var að stunda hugleiðslu sitjandi í lótus, með krosslagða fætur.

Uppruni jóga

Með tímanum fundu upphafsmenn jóga að líkaminn visnaði mjög hratt við svo langar setur og hreyfingarleysi í hugleiðslunni. Þeir vildu að líkaminn entist þeim jafnlengi og hinn skarpi hugur eftir hugleiðslu og aðra hugarrækt og ákváðu að bæta úr því með reglulegri hreyfingu. Gamalt indverskt spakmæli segir einmitt að heilbrigði og liðleiki hryggjar gefi til kynna raunverulegan aldur manns.

TeygjaEn hvernig var best að hreyfa sig? Svarið var að finna hjá dýrunum og fóru nú jógaiðkendurnir að fylgjast með atferli dýranna allt í kring og tóku svo upp á því að herma eftir þeim. Smám saman urðu þessar hreyfingar að því sem við köllum í daglegu tali jógaæfingar. Þetta varð til þess að margar æfingarnar bera enn í dag dýranöfn eins og til dæmis hundur og kráka. Talið er að jógaæfingarnar hafi til að byrja með einungis verið 84 talsins, en með tímanum hafa orðið til nýjar útgáfur og tilbrigði við hinar upprunalegu æfingar og nýjar æfingar hafa einnig bæst í hópinn. Í dag er almennt talið að til séu um 8.400 jógaæfingar og afbrigði sem eru nú órjúfanlegur hluti af jógahefðinni.

Teygja og styrkja

Öfugt við það sem margir halda snúast jógaæfingar ekki bara um það eitt að teygja á vöðvum. Hið sanna er að það er heilmikil styrktarþjálfun fólgin í jóga og það er eitt af því sem er ákjósanlegast að byrja að vinna með, áður en farið er í mikla liðleikaþjálfun. Ef liðleikinn verður of mikill á kostnað styrksins þá missum við stjórn á hreyfingum í kringum liðamót, ráðum ekki vel við hreyfingar og töpum krafti. Slíkt vöðvaójafnvægi er nær öruggt til að leiða af sér meiðsli ef ekkert er að gert. Þannig má færa rök fyrir því að það sé í raun tímasóun að teygja á vöðvum sem þegar eru langir. Við ættum að einbeita okkur að því að teygja á til að lagfæra vöðvaójafnvægi.

Vöðaójafnvægi

Flestir upplifa einhverskonar vöðvaójafnvægi í líkamanum, jafnvel óafvitandi. Ójafnvægið er misalvarlegt og getur orsakast af ótal atriðum. Flest erum við að glíma við einhæft lífsmynstur, bæði í starfi og leik; við sitjum miklu meira en okkur er hollt (í vinnunni, bílnum, heima í stofu). Þegar við förum í ræktina höldum við okkur oft við æfingar sem við lærðum fyrir löngu og við kunnum vel, því þær eru það sem við þekkjum.

Þjálfun ætti að samanstanda af hæfilegu magni styrktar- og liðkunaræfinga. Styrkja ætti þá vöðva sem fá hvað minnsta örvun í daglegu lífi og teygja meira á þeim vöðvum sem eru undir stöðugu álagi. Með reglubundinni þjálfun og iðkun jafnast þetta ójafnvægi út að miklu leyti og lagast jafnvel alveg. Allir ættu leggja sig fram við að finna heilsurækt sem er skemmtileg og hentug. Mestu máli skiptir að iðkunin sé regluleg.

Við ættum alltaf að gera heilsurækt að forgangsatriði, því lífið okkar og lífsgæðin velta á því, bókstaflega.

Eygló Egilsdóttir
Jógakennari, ÍAK einkaþjálfari
Stofnandi og eigandi Jakkafatajóga