Hvernig jóga stundar þú?
Hatha jóga er sú tegund jóga sem flestir iðkendur á Íslandi leggja stund á. Iðkunin felst aðallega í þrennu: líkamsæfingum, öndunaræfingum og slökun.
Orðið „Hatha“ kemur úr Sanskrít, sem er upprunamál Jógafræðanna, og merkir „sól og tungl“ Ha=sól, Tha=tungl. Orðin tvö vísa einnig í styrk og mýkt og minna okkur þannig á að jógaæfingarnar eru bæði hitandi og styrkjandi en einnig hægar, mjúkar og kælandi.
Mismunandi leiðir jóga
Hatha jóga er hluti af einni af fjórum tegundum jóga. Hinar þrjár eru: 1) Bhakti: Tilbeiðslujóga, iðkun felst í bæn, söng eða jafnvel dansi. 2) Gnana: leið vitsmuna, sem felst í að læra að þekkja sjálfan sig og sinn innsta kjarna og það sem er varanlegt. 3) Karma: iðkun felst í að finna tilgang og ánægju í athöfnum, að upplifa hverja athöfn sem hluta af æðra markmiði. Iðkandinn reynir að vinna verkið, vinnunnar vegna, óháð útkomunni (sem gætu verið t.d. laun eða annars konar ytri umbun).
Allar þessar leiðir eru jafn góðar og gildar og engin leið er betri en önnur til að ná árangri. Allar tegundir jóga hafa sama markmið; að iðkandinn læri að þekkja sjálfan sig og geti betur beint orku sinni í uppbyggilegar athafnir og orð. Ekkert er því til fyrirstöðu að iðka allar tegundir jóga samtímis. Flestir iðkendur finna þó yfirleitt einhverja eina leið sem hentar þeim best og leggja mesta ástundun á. Flestir sem iðka jóga á Íslandi í dag leggja stund á Hatha jóga, jafnvel þó tíminn kunni að kallast: kraftjóga, hot-yoga, meðgöngujóga, hlauparajóga o.s.frv. Ef tíminn felur í sér eitthvað af líkamsæfingum, öndunaræfingum eða slökun, þá fellur hann undir Hatha jóga.
Hatha algengast
Hatha jógatími sem er skynsamlega uppbyggður hefst yfirleitt á einbeitingaræfingu þar sem athyglin er færð inn í stað og stund. Þar næst eru helstu liðamót líkamans mýkt með hægum, mjúkum hreyfingum. Að því loknu er farið í flóknari æfingar; hitandi og styrkjandi. Æfingaval fer eftir hópnum sem er í salnum hverju sinni, en iðkendur njóta líkamlegra áhrifa einna best ef gerðar eru æfingar sem vinna á móti neikvæðum áhrifum nútímalífstíls. Til dæmis þurfa flestir að styrkja vöðvana á milli herðablaðanna en teygja á brjóstvöðvum. Því næst er farið í teygjur og viðsnúnar stöður. En í viðsnúnum æfingum er aðalatriðið að fá fætur í stöðu sem er ofar hjartanu. Allar viðsnúnar stöður eru taldar hafa góð áhrif á hjarta- og æðakerfi og þá sérstaklega sogæðakerfið. Að lokum er farið inn í slökun,lengd slökunar ætti að taka mið af ákefð æfinga í tímanum hverju sinni. Því meiri ákefð – því lengri slökun.
Framboð á jógatímum er mikið á Íslandi í dag og flestir ættu að geta fundið iðkun sinni stund og stað. Regluleg ástundun umbunar öllum meðal annars með fallegri líkamsburði og meiri líkamsvitund ásamt betra sjálfstrausti og bættum svefni.
Eygló Egilsdóttir
Jógakennari, ÍAK einkaþjálfari
Stofnandi og eigandi Jakkafatajóga