Breytir þetta stress einhverju?
Stress getur bankað upp á hvar sem er í daglega lífnu og það er auðvelt að hrífast með í hraða nútímalífs. Áreiti er víða og atriðin ótalmörg sem grípa athygli okkar. Við glepjumst af því sem ekki skiptir máli. Við eigum það til að detta í gryfju fjölverkavinnslu (e. multitasking) sem gerir okkur mjög upptekin, en það að vinna verkin skilar ekki endilega miklum árangri eða ánægju.
Stress í daglega lífinu
Reyndar sýna rannsóknir fram á að það er ekki til neitt sem heitir fjölverkavinnsla. Að við ið getum í raun ekki haldið athygli við marga hluti í einu. Við erum einungis fær um að beina athygli að einum hlut í einu. Þannig að þegar við teljum að um fjölverkavinnslu sé að ræða, þá skiptum við því sem fær athygli út mjög ört. Verkefnin skiptast á að fá athygli okkar í nokkur andartök í senn. Þetta verður til þess að við sinnum verkefnunum ekki eins og vel og við gætum.
Ýmsir hlutir eða aðstæður rífa í athyglina okkar og geta skapað streitu í líkamanum. Allt frá gluggapóstinum yfir í ökumanninn sem svínaði á okkur í morgunumferðinni yfirí krefjandi verkefni í vinnunni.
Fjarlægja stress?
Við getum ómögulega fjarlægt alla streituvaldana, en við getum haft eitthvað örlítið um það að segja hvaða áhrif þeir fá að hafa á okkur; líf, líðan og heilsu. Því sýnt hefur verið fram á að stress hefur ekki bara mjög neikvæð áhrif á heilsu okkar, heldur líka á börnin okkar og barnabörn.
Með einföldum jóga- og núvitundaræfingum má raunverulega minnka streituáhrifin. Byrjaðu á því að anda djúpt að þér og aftur frá. Finndu hvernig loftið fyllir lungun og hvernig bringa og kviður þenjast út við innöndun og falla aftur saman á fráöndun.
Svona, nú hefur þú dregið athyglina að fullu inn í núið. Flóknara þarf það ekki að vera.