Ert þú í jafnvægi?

Jafnvægi er aðalinntak jóga. Orðið sjálft merkir: sameining eða að sameina. Iðkunin felst í að sameina og samræma hreyfingu og öndun, hugsun og aðgerð, styrk og liðleika. Þannig er unnið að jafnvægi á öllum sviðum. Það er jóga.

Það er þó enn útbreiddur misskilningur að eingöngu sé einblínt á teygjuæfingar í jógatímum. Margir segja við mig að það þýði ekkert fyrir þá að mæta í jógatíma vegna þess að þeim finnist einfaldlega tímasóun að teygja. Það kemur fólki því verulega á óvart þegar ég tek undir þetta atriði með þeim. Hins vegar er líka tímasóun að teygja ekki!

Jafnvægi í mótsögn

Til að útskýra þessa mótsögn er nauðsynlegt að fara út í smá umfjöllun um vöðvafræði.

Jafnvægi Vöðvar eru samsettir af mörgum vöðvaþráðum sem mynda kraft í lengingu og styttingu. Ákveðnir boðefnavakar (aktin og myosin) eru staðsettir á vöðvaþráðunum sem „tala“ saman og búa til vöðvahreyfinguna. Til þess að vöðvinn myndi kraft á sem hagkvæmastan hátt, verður að vera jafnvægi á milli styrktar og liðleika í vöðvanum sjálfum.  Til dæmis, ef of stutt er á milli boðefnavakanna (stirðleiki) þá getur vöðvinn ekki myndað kraft, en sé of langt á milli þeirra (liðleiki) þá getur hann ekki heldur myndað kraft.

Jafnvægi í styrk og liðleika

Það er því aldrei tímasóun fyrir þann sem er með stutta vöðva (stirður) að teygja á þeim ákveðnu vöðvum og jafnvel nauðsynlegt til að mynda réttan kraft í gegnum liðamót. Fyrir þann sem er með langa vöðva (liðugur) getur verið betra að gera styrktaræfingar fyrir þá vöðva til að mynda réttan kraft í gegnum liðamótin.

Reyndur þjálfari getur hjálpað til við greiningar á þessu mynstri, en nútímalífstíll gerir það að verkum að við erum flest að glíma við sama eða svipað vöðvaójafnvægi í líkamanum. Flest sitjum við of mikið og réttum ekki nóg úr okkur. Því má segja, með smá einföldun, að flestir þurfi að styrkja vöðvana í bakinu og teygja á brjóstvöðvum.

Þannig eru einmitt æfingarnar sem við höfum valið til að gera í Jakkafatajóga og í jógatímunum hjá Yoga með Eygló. Við vinnum sífellt gegn lífsstílskvillunum. Reglulega komum við inn í fyrirtæki og aðstoðum iðkendur okkar við að teygja sig í átt að betri líðan.