Falin friðsæld
Margir þeirra sem leggja leið sína í fyrsta jógatímann eru fyrst og fremst að sækjast eftir því að bæta líkamlega heilsu. Og það er sannarlega fjölbreytt úrval jógatíma í boði: Allt frá mjúkum kundalini jóga tímum yfir í sveitta og krefjandi hot jóga tíma í sjóðheitum sal.
Það sem kemur oftar en ekki á óvart er að jógaiðkunin hefur ekki bara jákvæð áhrif á líkamann, heldur bætir líka andlega líðan. En staðreyndin er einmitt sú að á bak við æfingarnar sem við gerum í jógatímunum liggur ævaforn heimspeki sem oft gleymist.
Jóga varð til fyrir um 5000 árum á Indlandi og í fyrstu var það aðeins ætlað fáum útvöldum karlmönnum. Í fyrstu gekk jógaiðkunin aðeins út á það að hugleiða en síðar þróaðist jógaæfingakerfið sem við þekkjum í dag, enda nauðsynlegt að vera við góða líkamlega heilsu ef maður ætlar að sitja lengi og hugleiða. Orðið jóga þýðir að sameina og tilgangur jóga hefur alltaf verið að kalla fram jafnvægi á milli líkamlegrar heilsu, hugsana okkar og tilfinninga.
Um 1900 byrjuðu jógameistarar Indlands að ferðast til vestrænna ríkja og fengu töluverða athygli og fylgjendur. Vestræni hluti heimsins lagði meiri áherslu á líkamlega ávinninga jóga og síðan hafa þróast margar mismunandi leiðir til iðkunnar.
Þannig að þrátt fyrir að jóga virðist oft vera eingöngu líkamsrækt þá er gott að muna að tilgangur jóga hefur alltaf verið að kalla fram friðsældina sem er falin djúpt undir niðri hjá okkur öllum.